fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Atferlisgreining á dýrategundinni stjórnmálamaður


Stjórnmálamenn eru skrítnar skepnur. Í umróti undanfarinna missera hafa komið fram nokkrar undirtegundir sem keppast við að fara í taugarnar á og misbjóða almennum borgunum. Eða mér, í það minnsta.

Sú tegund stjórnmálamanna sem hvað auðveldast er að fordæma er vinsældapésinn. Hann verður æ ofan í æ uppvís að pólitískum vingulshætti þegar hann rekur sig á að ákvarðanir hans fara þvert ofan í fólkið sem hann vill að sjái honum fyrir áframhaldandi starfi eftir næstu kosningar. Ef í honum blundar metnaður í bland við þörfina fyrir að þóknast öðrum er jafnvel hægt að heyra hann andmæla sjálfum sér í einum og sama fréttatímanum.

Til að sýna og sanna að þeir séu ekki þessu marki brenndir sveifla sumir stjórnmálamenn sínum pólitíska pendúl í þveröfuga átt. Þeir keppast við að hafa kjark til að taka óvinsælar ákvarðanir svo pólitísk heilindi þeirra fari ekkert á milli mála. Því miður virðist þeim stundum standa á sama um það hvort eitthvað vit er í þessum ákvörðunum yfir höfuð. Að hanga á vondri stefnu eins og hundur á roði verður að keppnisgrein í höndum þessara sjálfkrýndu hugsjónamanna.

Báðar þessar tegundir stjórnmálamanna geta þróast yfir í hinn klassíska minnisvarðapólitíkus. Það sem greinir á milli er að vinsældavingullinn, stundum nefndur fyrirgreiðslufíflið, gerir þó einhverja glaða með því að pota niður mannvirkjum og stofnunum hist og her. Hinn krossfesti píslarvættispólitíkus skilur hins vegar yfirleitt eftir sig sviðna jörð ef hann kemst til valda.

Það hryggir mig að sjá fátt annað en skopstælingar þegar ég lít yfir hinn pólitíska vígvöll. Hugsjónir um lýðræði sem farveg fyrir viti bornar verur til að haga sínum sameiginlegu málum verða útópían ein. Og hvað er vandamálið? Hvar stendur hinn fræðilegi hnífur í þjóðarbeljunni? Veljast ekki hæfir menn til forystu? Eða eru hendur fulltrúa okkar kannski bundnar af öðru en þeirra bestu hugmyndum?

Allt of margir pólitíkusar sem eru knúnir inn á þing af hugsjónum og eldmóði skipta þar um hvarfakút og ganga eftir það fyrir óttanum einum saman. Óttanum við að tapa í næstu kosningum, verða að athlægi í fjölmiðlum eða þykja ekki nægilegur harðkjarni á næsta flokksþingi. Óttinn við rödd samviskunnar, þessa sem ætti að heyrast í við náttmál þegar ljósin eru slökkt, virðist hjómið eitt í samanburði við þau verðmæti sem felast í vegtyllum og fagurgala.

Ég vil meina að vandinn sé að miklu leyti kerfislægur. Eitthvað mætti leysa með því að hafa þak á þeim tíma sem menn mega starfa sem alþingismenn eða ráðherrar. Svo myndi ekki saka að láta orðfærið endurspegla raunverulegt hlutverk þeirra, til dæmis með því að tala um alþingisþjóna. Orðið ráðherra er svo völdum hlaðið að það er engin leið að breyta því, heldur þyrfti að finna alveg nýtt heiti fyrir það embætti. Hvernig hljómar framkvæmdaþjónn?

Umfram allt þurfum við að muna að stjórnmálamenn eru bara menn, og breyskir eftir því. Kerfið má ekki vera gróðrarstía fyrir þeirra verstu hliðar. Eins og staðan er í dag myndi ég ekki hætta mér inn fyrir þessa víglínu. Ég kann ágætlega við mig eins og ég er. Sú manneskja sem ég yrði eftir nokkrar umferðir í pólitíska hringnum er skepna sem ég myndi ekki þora að mæta utan alfaraleiðar.

Reynum að hugsa með kærleika til þeirra sem berjast um okkur og fyrir okkur í fallega hringleikahúsinu við Austurvöll. En varið ykkur. Þau geta bitið.


laugardagur, 16. október 2010

Eðlið og eyðurnar - rangstæður pistill

Í síðasta pistli nefndi ég í framhjáhlaupi fyrirbæri sem hefur ítrekað leitað á huga minn, sumsé þörf mannsins fyrir að fjölga sér. Nokkrir þættir í þessu fyrirbæri eru borðleggjandi. Dýrategund sem ekki fjölgar sér er snögg að þurrka sig út úr genamenginu. Náttúran hlýtur því að hafa laumað þessu inn í grunnforritið hjá okkur. Við þurftum síðan auðvitað að flækja málin með því að gerast siðmenntaðar og vitrænar verur.

Á fjölmörgum sviðum mannlífsins er slagurinn milli dýrsins og skynseminnar opinber og viðurkenndur. En á þessu sviði virðist vera bannað að tala um togstreitu milli ólíkra hliða. Kannski er það heilagleikinn sem lengi vel umlukti allt sem snerti barneignir. Í heimi hinnar hamingjusömu húsmóður var ekkert dýrslegt eða stjórnlaust. Madonnan með barnið á arminum mátti ekki vera þunglynd eða þykja leiðinlegt að strauja barnaföt. Hún geislaði af hamingju og þakklæti fyrir hlutskipti sitt í lífinu.

Afkomandi rauðsokkanna átti annan djöful að draga. Löngun til að sinna börnum og búi var farið með eins og mannsmorð í heimi þar sem baráttan fyrir tilverurétti utan hins gamla, úrelta ramma var allsráðandi. Í dag viljum við kannski meina að jafnvægi sé náð. Konur hafi félagslegt leyfi til að velja sína leið án þess að vera andlega grýttar af samferðamönnum sínum. En ég er ekki frá því að það sé ennþá forboðið að vera í togstreitu, vera dýrslegur og stjórnlaus og vita ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Krafa dagsins er að konan viti hvað hún vill.

Nú þekki ég fólk sem segist í fullri einlægni ekki langa að eiga börn. Og ég trúi því. Þessir einstaklingar hafa valið sér aðra leið en móðir náttúra hafði lagt upp með. Þau vita að lífinu verður ekki lifað í einni vídd, að tilgangur okkar er orðinn talsvert flóknari en svo að okkar eina verkefni sé að láta boltann rúlla áfram.

En þetta eru undantekningarnar. Flestir vilja eignast börn. Flest okkar vilja meira að segja eignast fleiri en eitt. Ég hélt í sakleysi mínu að ferlið snerist um að komast á endanum í pena og huggulega fjölskyldustærð, hver sem hún svo væri. Maður myndi bara finna þegar þetta væri komið gott. Núna er ég hins vegar stödd á einhverjum undarlegum krossgötum þar sem togstreita dýrsins og skynsemisverunnar er farin að krauma á yfirborðinu.

Dóttir mín, unginn á heimilinu, er nýbyrjuð í skóla. Þegar sonur minn, frumburðurinn, var nýbyrjaður í skóla var dóttir mín nýfædd. Ef ekki væri fyrir efnahagsástandið og þá geðveiki sem greip mig fyrir ári þegar ég tók að mér stórt rannsóknarverkefni, væri orðið óþægilega þægilegt að vera ég. Á þeim tíma dagsins sem einu sinni hét úlfatíminn (milli fjögur og átta þegar allir eru þreyttir, spenntir og háværir) stend ég mig æ oftar að því að sitja ein og sinna mínum verkum í grafarþögn. Börnin eru ekki í hárinu á mér heldur úti að leika eða inni í herbergi að teikna.

Og þá hefst togstreitan. Meirihlutinn af mér er himinlifandi. Ég sé fram á nýja tíma með meira frelsi og orku til að takast á við spennandi hluti. Unglingsár frumburðarins eru framundan og verða ærið verkefni út af fyrir sig. Ég verð þreytt bara við tilhugsunina um að hlaupa á eftir óvita á öðru ári sem leitar uppi hættur eins og þær væru gotterí. Nenni heldur engan veginn að koma mjaðmagrindinni á mér í það form sem hún þyrfti að vera í til að komast í gegnum aðra meðgöngu ógrátandi. Fyrir utan það að þegar ég horfi í spegilinn, á gráa lokkinn sem er að brjótast fram í mínum 37 ára gamla kolli, finnst mér ég ekki lengur á þessum stað í minni vegferð. Föður- og móðursystir, kannski amma þegar fram líða stundir. En ekki ungamamma einn ganginn enn.

Hvernig í almáttugs bænum getur þá staðið á því að mér virðist það lífsins ómögulegt að gefa endanlega upp á bátinn hugmyndina um að bæta við öðru barni? Ég hélt lengi vel að þetta væri einhver tegund af geðveiki. Kannski væri ég búin að finna hina einu sönnu móðursýki, eins konar fíkn í móðurhlutverkið.

Mér varð strax rórra eftir að ég ræddi þetta mál við konu sem er mér bæði eldri og reyndari á alla kanta. Hún var sannfærð um að þessi ákveðna tegund af móðursýki væri hluti af eðlinu. Það skipti engu máli hversu mikið af börnum við ættum eða hvað við værum gamlar. Tilfinningin um að þurfa meira kæmi alltaf til með að skjóta upp kollinum aftur og aftur. Önnur góð kona vildi meina að þetta náttúruafl hefði þriggja ára sveiflutíðni. Að á þriggja ára fresti grípi konur tómleikatilfinning sem þær fylli í með nýju áhugamáli, vinnu, hundi eða barni.

Þessar kenningar eru auðvitað gargandi andfemínískar og greiða upp á móti hárunum öllum þeim sem vilja meina að þeir eigi frjálst val um líf sitt. En það verður að segjast að þær eiga óþægilega vel við um lífshlaup mitt síðustu árin. Samkvæmt þessu er ég einmitt núna í miðri þriggja ára krísu, sem útskýrir kannski hvað ég er upptekin af þessu málefni í augnablikinu. Núverandi árás eðlishvatanna er sem betur fer yfirskyggð af annríkinu sem fylgir því að vera bæði í vinnu og skóla. Búið að byrgja þann brunn. Hvað ég geri í næstu atlögu, þegar við þetta bætist þráhyggjan um að síðasta rykfallna eggið sé farið að skrölta í hálftómum stokknum... ja, það er ómögulegt að segja.

mánudagur, 11. október 2010

Byggðabjálki í mínu eigin

Eins mikið og mig langar að tjá mig um mál málanna, niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þá fæ ég það eiginlega ekki af mér. Ég get ekki hrist af mér þá tilfinningu að þessi fjárlög séu einn stór brandari sem er ætlað að hræða landann til hlýðni. Þá kvartar enginn þegar hinar raunverulegu niðurskurðartillögur koma fram.

Fárið í kringum þetta tiltekna mál hefur hins vegar leitt huga minn að byggðamálum, bæði almennt og persónulega. Nú er ég blendingur og átti því láni að fagna að ala hálfan manninn á Ísafirði. Hina hliðina hef ég alið í Reykjavík. Giftist síðan Ísfirðingi, svo mér telst svo til að börnin okkar séu 75% Ísfirðingar þótt þau hafi aldrei átt þar lögheimili.

Ég er líka svo lánsöm að hafa mér við hlið tvo einstaklinga sem eru öflugir málsvarar togstreitunnar innra með mér. Annars vegar er það móðir mín, sem á í eldheitu ástarsambandi við 101 Reykjavík, hvar hún elur manninn. Hún kann að njóta þess í botn sem borgin hefur að bjóða, hjólar milli tónleika og kaffihúsa af slíkri ástríðu að allar heimsins úlpur og krútt blikna í samanburðinum. Á hinum vængnum er það svo bróðir minn, sem er ekki bara Ísfirðingur, heldur öfga-Ísfirðingur. Ef hann neyðist til að reka erindi í borg vindanna, þar sem meira að segja snjórinn verður grár, stoppar hann svo stutt að við sjáum bara af honum skuggann.

Það er rödd bróður míns sem bergmálar í höfði mér ef ég gerist svo óforskömmuð að hafa skoðun á byggðamálum: ,,Já, já. Það vilja allir vera FRÁ Ísafirði. Það vilja bara ekki allir vera Á Ísafirði." Að vissu leyti finnst mér ég hafa svikist undan. Ekki skilað mér aftur vestur eins og bróðir minn gerði. Þegar talið berst að unga fólkinu sem streymir til höfuðborgarinnar og ílendist þar fussa ég og sveia meðan hrollur tvískinnungsins hríslast um mig alla.

Allir þekkja tilfinninguna um að eiga einhvers staðar heima. Sú tilfinning kemur yfir mig í hvert sinn sem ég keyri eða flýg inn Skutulsfjörðinn. Fjöllin þrúga aðkomufólk sem alist hefur upp í víðáttunni. En þau knúsa mig og faðma á einhvern hátt sem Esjan á aldrei eftir að gera. Ég gæti starað upp í hamrabeltin um alla eilífð, hvort sem þau eru hvít af snjó, blá af tungskini, svört af regni eða rauð af morgunsól. Þessi ást mín á æskuslóðunum sækir sífellt meira á mig eftir því sem árin líða. Síðustu vikur og mánuði hef ég velt því fyrir mér í alvöru að snúa aftur. Bjóða börnunum mínum upp á þá fegurð og friðsæld sem ég sjálf fékk að reyna. En ekki í dag.

Í dag er útlit fyrir að starfskrafta minna verði ekki óskað á Ísafirði næstu árin. Þegar ég ákvað að mennta mig til ljósmóðurstarfa hélt ég í einfeldni minni að þó námið væri langt og launin ekki þau hæstu yrði ég samt sem áður á nokkuð grænni grein. Ég gerði nefninlega ráð fyrir að það væri leitun að annarri eins grunnþörf hjá mannskepnunni eins og þeirri að fjölga sér. Ef við litumst um, hvort sem er í tíma eða rúmi, þá er alveg sama hversu frumstæð samfélög mannanna eru. Konu í barnsnauð er komið til hjálpar.

Ætli það sé ekki þess vegna sem ég neyðist til að afgreiða sem brandara þetta fjárlagafrumvarp sem allt er um koll að keyra. Ég neita að búa í landi sem ætlar að verða eftirbátur allra samfélaga fyrr og síðar í þessum tveimur málaflokkum sem standa hjarta mínu svo nærri: heilbrigðismálum og byggðamálum.

Ef af þessu verður er ekki annað í boði en að segja sig úr lögum við land og þjóð. Það væri til dæmis hægt að gera með því að láta gamlan draum bróður míns rætast og stofna fríríkið Vestfirði. Ég skal með glöðu geði bjóða þegna þess velkomna í heiminn.

sunnudagur, 10. október 2010

Í upphafi

Orð geta verið dásamleg. Þau geta líka verið stórhættuleg. Þegar á að leika sér að orðum á opinberum vettvangi er eins gott að fara varlega. Mitt fyrsta verk á þessari síðu verður þess vegna að setja sjálfri mér leikreglur. Verandi reglugerðafasisti að upplagi væri annað út úr karakter.

Fyrsta regla: Fara ekki með rangt mál.
Önnur regla: Láta ótta minn við að fara með rangt mál ekki hindra mig í að hafa skoðun.
Þriðja regla: Hafa kjark til að skipta um skoðun þegar það á við.
Fjórða regla: Hafa vit á því að þegja þegar það á við.
Fimmta regla: Ekki meiða.

Þessi síðasta er kannski sú eina sem skiptir einhverju máli.
Ég hugsa að ég hafi hana í heiðri.