Stjórnmálamenn eru skrítnar skepnur. Í umróti undanfarinna missera hafa komið fram nokkrar undirtegundir sem keppast við að fara í taugarnar á og misbjóða almennum borgunum. Eða mér, í það minnsta.
Sú tegund stjórnmálamanna sem hvað auðveldast er að fordæma er vinsældapésinn. Hann verður æ ofan í æ uppvís að pólitískum vingulshætti þegar hann rekur sig á að ákvarðanir hans fara þvert ofan í fólkið sem hann vill að sjái honum fyrir áframhaldandi starfi eftir næstu kosningar. Ef í honum blundar metnaður í bland við þörfina fyrir að þóknast öðrum er jafnvel hægt að heyra hann andmæla sjálfum sér í einum og sama fréttatímanum.
Til að sýna og sanna að þeir séu ekki þessu marki brenndir sveifla sumir stjórnmálamenn sínum pólitíska pendúl í þveröfuga átt. Þeir keppast við að hafa kjark til að taka óvinsælar ákvarðanir svo pólitísk heilindi þeirra fari ekkert á milli mála. Því miður virðist þeim stundum standa á sama um það hvort eitthvað vit er í þessum ákvörðunum yfir höfuð. Að hanga á vondri stefnu eins og hundur á roði verður að keppnisgrein í höndum þessara sjálfkrýndu hugsjónamanna.
Báðar þessar tegundir stjórnmálamanna geta þróast yfir í hinn klassíska minnisvarðapólitíkus. Það sem greinir á milli er að vinsældavingullinn, stundum nefndur fyrirgreiðslufíflið, gerir þó einhverja glaða með því að pota niður mannvirkjum og stofnunum hist og her. Hinn krossfesti píslarvættispólitíkus skilur hins vegar yfirleitt eftir sig sviðna jörð ef hann kemst til valda.
Það hryggir mig að sjá fátt annað en skopstælingar þegar ég lít yfir hinn pólitíska vígvöll. Hugsjónir um lýðræði sem farveg fyrir viti bornar verur til að haga sínum sameiginlegu málum verða útópían ein. Og hvað er vandamálið? Hvar stendur hinn fræðilegi hnífur í þjóðarbeljunni? Veljast ekki hæfir menn til forystu? Eða eru hendur fulltrúa okkar kannski bundnar af öðru en þeirra bestu hugmyndum?Allt of margir pólitíkusar sem eru knúnir inn á þing af hugsjónum og eldmóði skipta þar um hvarfakút og ganga eftir það fyrir óttanum einum saman. Óttanum við að tapa í næstu kosningum, verða að athlægi í fjölmiðlum eða þykja ekki nægilegur harðkjarni á næsta flokksþingi. Óttinn við rödd samviskunnar, þessa sem ætti að heyrast í við náttmál þegar ljósin eru slökkt, virðist hjómið eitt í samanburði við þau verðmæti sem felast í vegtyllum og fagurgala.
Ég vil meina að vandinn sé að miklu leyti kerfislægur. Eitthvað mætti leysa með því að hafa þak á þeim tíma sem menn mega starfa sem alþingismenn eða ráðherrar. Svo myndi ekki saka að láta orðfærið endurspegla raunverulegt hlutverk þeirra, til dæmis með því að tala um alþingisþjóna. Orðið ráðherra er svo völdum hlaðið að það er engin leið að breyta því, heldur þyrfti að finna alveg nýtt heiti fyrir það embætti. Hvernig hljómar framkvæmdaþjónn?
Umfram allt þurfum við að muna að stjórnmálamenn eru bara menn, og breyskir eftir því. Kerfið má ekki vera gróðrarstía fyrir þeirra verstu hliðar. Eins og staðan er í dag myndi ég ekki hætta mér inn fyrir þessa víglínu. Ég kann ágætlega við mig eins og ég er. Sú manneskja sem ég yrði eftir nokkrar umferðir í pólitíska hringnum er skepna sem ég myndi ekki þora að mæta utan alfaraleiðar.
Reynum að hugsa með kærleika til þeirra sem berjast um okkur og fyrir okkur í fallega hringleikahúsinu við Austurvöll. En varið ykkur. Þau geta bitið.