föstudagur, 13. maí 2011

Ísbjarnarfób


Þá er frúin skriðin undan feldi og farin að ástunda samskipti við fólk eftir nokkurra mánaða vinnutörn. Á meðan hef ég misst af nokkrum fyrirtaks bloggefnum, eins og staðgöngumæðrun og æseif. Gaman að sjá hvað eldheit málefni eru fljót að fyrnast.

Tilefni þessa pistils er símtal sem ég fékk snemma í morgun frá tveggja ára bróðursyni mínum sem býr á Ísafirði. Hann tjáði frænku sinni áfjáður að það væri allt í lagi þó það væri ísbjörn í Fljótavík, Berglind frænka ætti bara að ýta honum út í sjó. Eftir upphaflega adrenalínlostið sem greip mig við að heyra orðin ,,ísbjörn” og ,,Fljótavík” í sömu setningu komst ég að því að þessi frétt hafði ekki átt sér neina stoð í veruleikanum. Þeir feðgar höfðu bara verið að ræða sumarfríið og hvað þeir ætluðu að gera skemmtilegt í Fljótavík, veiða fisk og kannski sjá eins og einn ísbjörn.
Góði ísbjörninn og konan

Og þá barst talið að Berglindi frænku, og þeirri sérkennilegu staðreynd að hún ku vera hrædd við ísbirni. Síðustu ár hef ég einmitt verið höfð að háði og spotti þegar ég bendi fólki á að þessi dýr séu hvorki sniðug né skemmtileg. Þegar fyrstu dýrin í yfirstandandi ísbjarnahrinu gengu á land fyrir nokkrum árum byrjaði ég að þróa með mér hálfgerða fóbíu fyrir þessum dýrum. Ég hafði jú alltaf vitað af því að í Fljótavíkinni minni hafði ísbjörn komið, séð og tapað þegar ég var ársgömul. Aldrei hvarflaði þó að mér að leiða hugann að neinu slíku þar sem ég naut barnæskunnar öll sumur í þessari paradís sem engin leið er að lýsa með orðum (í alvöru, búin að reyna).

Fyrsta ísbjarnarfréttin eftir að ég varð móðir rann hins vegar álíka ljúflega ofan í mig eins og kjúklingabein með salmonellu. Skyndilega var það ekki alveg jafn góð hugmynd að leyfa börnunum mínum að njóta dýrðarinnar í Fljótavík eins og ég hafði fengið að gera. Hvernig var það líka hægt, þegar hver einasti hóll eða hola gat verið felustaður fyrir glorhungraðan bangsa sem langaði í ferska krakkasteik?

Góði ísbjörninn og barnið
Þegar ég fór að orða þessar hugsanir mínar ofurvarlega við mína nánustu (því maður segir svona vitleysu auðvitað ekki upphátt, ekki alveg) var horft á mig eins og ég væri alvarlega greindarskert eða geðtrufluð. Og já, ég viðurkenni það að tölfræðilega er það ekki líklegasti dauðdaginn sem bíður mín og barnanna minna að vera étin af ísbirni. Það eru þónokkrir ljótir kallar mun framar í þeirri röð, eins og til dæmis krabbamein eða kransæðastífla.

Þetta eru hins vegar ljótir kallar sem ég á einhvern séns í. Ég get stundað hollan lífstíl og kennt börnunum mínum það sama. Ef ég fæ svona sjúkdóm get ég leitað mér lækninga. En segið mér, hvað á ég að gera ef ég stend andspænis froðufellandi ísbirni sem horfir græðgisaugum á spóaleggi barnanna minna eða mín eigin holdmeiri læri? Taka lýsi og fara í ræktina?

Góði ísbjörninn að borða matinn sinn
Ókei, það eru nokkur trix sem hægt er að læra af internetinu (já, ég er búin að leita að þeim og læra þau!). Það má til dæmis reyna að gera sig stóran, breiða úr jakkalöfum ef þau eru til staðar, standa á tám og öskra eins og vitlaus manneskja. Þá heldur bangsi kannski að ég sé hættulegri en hann. Ef hann er fáviti!

Fóbíur eru þess eðlis að þær hlusta ekki á rök, þannig að það er tilgangslaust að hugsa sig frá þeim. Ætli ég þurfi ekki að gefa sjálfri mér leyfi til að vera hrædd við stórhættulega mannætuísbirni, sama hvað skoðunum annarra líður. En ég ætla ekki að láta þessa fóbíu stjórna gjörðum mínum eða ræna börnin mín frábærum tækifærum. Þannig að ég fer með þau til Fljótavíkur í sumar, eins og til stóð, þrátt fyrir nýlega ísbjarnarkomu í næstu vík við hliðina. En ætli ég þiggi ekki boð bróður míns um að hann taki með sér haglarann til öryggis. Þó ekki sé nema til þess að hann og maðurinn minn hafi eitthvað að hlæja að í sumarfríinu.

laugardagur, 1. janúar 2011

Játningar myntkörfukonu - uppgjör við gengistryggt ólán

Nýtt ár felur gjarnan í sér uppgjör við þau eldri, endurskoðun og jafnvel játningar. Í tilefni af nýlegri lagasetningu tel ég að ekki verði lengur hjá því komist að taka niður grímuna, koma út úr skápnum, standa stolt mót storminum og segja: ,,Hæ, ég heiti Berglind og ég tók gengistryggt húsnæðislán!"

Frá hausti 2008 hefur þurft að fara með það eins og mannsmorð að vera með gengistryggt lán á samviskunni. Almannarómur hefur ýmist útlistað mig og mína líka sem hálfvita sem kunnu ekki fótum sínum forráð, eða græðgispúka sem veðjuðu á vitlausan hest og áttu því skellinn skilið. Sjálf hef ég hallast að því að kenna sjálfri mér um eigin ófarir, og því höfum við hjónin tekist á við vandamálið upp á gamla mátann: sett undir okkur hausinn, unnið eins og skepnur og haldið áfram að borga.

Ég er því stoltur eigandi eins af örfáum gengistryggðum lánum sem er hvorki búið að fresta né frysta, greiðslujafna eða greiðsluaðlaga. Auðvitað hangir þetta á þeirri staðreynd að við hjónin höfum haft vinnu og getað bætt við okkur meira af henni ef svo ber undir. Jákvætt í sjálfu sér, en verður til þess að öllu er fórnað. Líkamleg heilsa, andlegt jafnvægi, tími til að sinna börnunum okkar, allt fer það í gapastokkinn. Við erum að endurtaka það sem kynslóð tengdaforeldra minna gerði þegar verðtryggingin var nýfædd. Horfum á skuldirnar gleypa allt okkar líf eins og æxli utan á fjölskyldunni. Öll orkan fer í að næra skrímslið.

Þetta er sérlega dapurlegt í ljósi þess að það voru einmitt þessi örlög sem við reyndum að forðast með því að taka okkar ástkæra, gengistryggða húsnæðislán. Á haustmánuðum ársins 2006 höfðum við loksins fest kaup á íbúð sem passaði utan um fjölskylduna, sem hafði talið fimm manns í þriggja herbergja íbúð frá því að yngsta barnið kom í heiminn tveimur árum áður. Afhendingartíminn var langur og við höfðum góðan tíma til að íhuga hvers konar lán skyldi taka. Við nýttum tímann til að skoða gengisþróun gjaldmiðla eins langt aftur í tímann og skráning náði, lásum greinar eftir spekinga á fjármálamarkaði og settum fram útreikninga í ótal excel-skjölum. Niðurstaðan varð þessi: Gengistryggt lán tekið fyrir 45% af kaupverði, íslenskt verðtryggt fyrir 20%, og 35% áttum við í beinhörðum froðupeningum úr litlu íbúðinni okkar sem hafði margfaldast í verði á þeim 9 árum sem við áttum hana.

Það sem kveikti með okkur löngun til að taka myntkörfulán var reynsla okkar sjálfra og undangenginna kynslóða af þessum klassísku verðtryggðu lánum. Með því að taka slíkt lán er óvissan lítil. Maður er alltaf handviss um að vera tekinn í bakaríið af lánadrottnum sem sjálfir taka enga áhættu. Auðvitað var freistandi að nýta annan valkost, fyrst hann var til staðar á annað borð. Það hafði ekkert með græðgi að gera, heldur sjálfsbjargarviðleitni þess sem vill ekki vera ofurseldur veikleikum meingallaðs hagkerfis.

Það sem ýtti okkur yfir brúnina og varð til þess að við tókum gengistryggða lánið í raun og veru var tvennt: Annars vegar voru það línuritin sem sýndu okkur svart á hvítu verðbólguskotin sem fylgdu í kjölfar reglulegra niðursveiflna á gengi krónunnar. Flöktandi gengi hefði því við eðlilegar aðstæður ekkert síður haft áhrif á verðtryggt lán en gengistryggt. Hins vegar var það ráðgjafi lánveitandans sem sagði mér blákalt, þar sem ég hafði í sakleysi mínu sett árlega 1% veikingu krónunnar inn í excel-skjalið til að gefa íslensku lánunum vott af samkeppnisstöðu: ,,Nei blessuð vertu, krónan fer upp og niður, en hún á aldrei eftir að falla um 40% í heildina, ekki einu sinni á 40 árum!"

Hálfu öðru ári síðar áttum við eftir að reyna á eigin skinni gamla brandarann um að það sem aldrei hefur gerst áður getur alltaf gerst aftur. Allt sem við lögðum til grundvallar þegar ákvörðun um lán var tekin hefur molnað undan okkur og fokið burt með vindinum. Í dag stöndum við í martröð foreldra okkar miðri og spyrjum okkur hvernig í fjandanum okkur hafi tekist að koma okkur í þessar ógöngur.

Ég er að upplagi varkár manneskja, nákvæm með eindæmum og á til að vera svo skynsöm að jaðrar við fötlun. Að verða uppvís að því að hafa veðjað svona vitlaust gerir sjálfsmynd minni engan greiða. Því fer um mig hrollur við tilhugsunina um að framundan sé enn ein ákvörðunin varðandi lánið mitt. Nú á að breyta því, ýmist í verðtryggt, óverðtryggt eða ,,alvöru" erlent. Og hverju á ég að treysta? Eigin dómgreind? Sérþekkingu bankamanna? Nei, ætli sé ekki kominn tími til að sýna ábyrgð í þessu máli. Það er kominn tími til að kasta krónu.