Fárið í kringum þetta tiltekna mál hefur hins vegar leitt huga minn að byggðamálum, bæði almennt og persónulega. Nú er ég blendingur og átti því láni að fagna að ala hálfan manninn á Ísafirði. Hina hliðina hef ég alið í Reykjavík. Giftist síðan Ísfirðingi, svo mér telst svo til að börnin okkar séu 75% Ísfirðingar þótt þau hafi aldrei átt þar lögheimili.
Ég er líka svo lánsöm að hafa mér við hlið tvo einstaklinga sem eru öflugir málsvarar togstreitunnar innra með mér. Annars vegar er það móðir mín, sem á í eldheitu ástarsambandi við 101 Reykjavík, hvar hún elur manninn. Hún kann að njóta þess í botn sem borgin hefur að bjóða, hjólar milli tónleika og kaffihúsa af slíkri ástríðu að allar heimsins úlpur og krútt blikna í samanburðinum. Á hinum vængnum er það svo bróðir minn, sem er ekki bara Ísfirðingur, heldur öfga-Ísfirðingur. Ef hann neyðist til að reka erindi í borg vindanna, þar sem meira að segja snjórinn verður grár, stoppar hann svo stutt að við sjáum bara af honum skuggann.
Það er rödd bróður míns sem bergmálar í höfði mér ef ég gerist svo óforskömmuð að hafa skoðun á byggðamálum: ,,Já, já. Það vilja allir vera FRÁ Ísafirði. Það vilja bara ekki allir vera Á Ísafirði." Að vissu leyti finnst mér ég hafa svikist undan. Ekki skilað mér aftur vestur eins og bróðir minn gerði. Þegar talið berst að unga fólkinu sem streymir til höfuðborgarinnar og ílendist þar fussa ég og sveia meðan hrollur tvískinnungsins hríslast um mig alla.
Allir þekkja tilfinninguna um að eiga einhvers staðar heima. Sú tilfinning kemur yfir mig í hvert sinn sem ég keyri eða flýg inn Skutulsfjörðinn. Fjöllin þrúga aðkomufólk sem alist hefur upp í víðáttunni. En þau knúsa mig og faðma á einhvern hátt sem Esjan á aldrei eftir að gera. Ég gæti starað upp í hamrabeltin um alla eilífð, hvort sem þau eru hvít af snjó, blá af tungskini, svört af regni eða rauð af morgunsól. Þessi ást mín á æskuslóðunum sækir sífellt meira á mig eftir því sem árin líða. Síðustu vikur og mánuði hef ég velt því fyrir mér í alvöru að snúa aftur. Bjóða börnunum mínum upp á þá fegurð og friðsæld sem ég sjálf fékk að reyna. En ekki í dag.
Í dag er útlit fyrir að starfskrafta minna verði ekki óskað á Ísafirði næstu árin. Þegar ég ákvað að mennta mig til ljósmóðurstarfa hélt ég í einfeldni minni að þó námið væri langt og launin ekki þau hæstu yrði ég samt sem áður á nokkuð grænni grein. Ég gerði nefninlega ráð fyrir að það væri leitun að annarri eins grunnþörf hjá mannskepnunni eins og þeirri að fjölga sér. Ef við litumst um, hvort sem er í tíma eða rúmi, þá er alveg sama hversu frumstæð samfélög mannanna eru. Konu í barnsnauð er komið til hjálpar.
Ætli það sé ekki þess vegna sem ég neyðist til að afgreiða sem brandara þetta fjárlagafrumvarp sem allt er um koll að keyra. Ég neita að búa í landi sem ætlar að verða eftirbátur allra samfélaga fyrr og síðar í þessum tveimur málaflokkum sem standa hjarta mínu svo nærri: heilbrigðismálum og byggðamálum.
Ef af þessu verður er ekki annað í boði en að segja sig úr lögum við land og þjóð. Það væri til dæmis hægt að gera með því að láta gamlan draum bróður míns rætast og stofna fríríkið Vestfirði. Ég skal með glöðu geði bjóða þegna þess velkomna í heiminn.
Flottur pistill :) Ísafjörður er að sjálfsögðu bara besti bærinn og fjöllin láta manni líða vel, en það er þónokkuð til í orðum Bjarka. Væri held ég bara flott að fá fríríkið Vestfirði eins og staðan er í dag :)
SvaraEyðaTakk fyrir unaðslega lýsingu á móður þinni.
SvaraEyðaÉg skal koma og taka myndir af ykkur systkinum ef þið haldið áfram mokstri þar sem skessan hætti forðum í Gilsfirðinum.
Orð í tíma töluð!
SvaraEyðaVið sem búum norðan Hvalfjarðar og/eða austan Þingvallavatns erum greinilega mikill baggi á Suðvesturhorninu.
Ég er með tillögu um að ganga miklu lengra:
Dreifbýlingar, sameinumst nú um að veita Suðvesturhorninu fullt sjálfstæði og losa þá undan því oki sem það er að halda landsbyggðinni uppi. Þeir geta þá lifað í vellystingu á að selja hvor öðrum munaðarvarning.
Við hin getum barasta dregið fram lífið með ca. 80% fiskveiðilögsögunnar, öll fallvötnin og mestalla náttúrufegurðina. Að vísu mundum við væntanlega rústa þessu fljótlega með að virkja hvern læk og malbika yfir restina þegar við þurfum ekki lengur að sækja um leyfi til þess til Reykjavíkur (...og fylgja þar góðri fyrirmynd þeirra "fyrir sunnan").
Ef allt annað bregst getum við hugsað smærra og girt frá Gilsfjarðarbotni til austurs.
PS. Hér er nýtt orðatiltæki sem hefur sannast undanfarið: Af pólitík verður margur api...
Elsku vinkona....ég fylltist unaðstilfinningu við lestur þinna skrifa. Mikil viska og sannleikur í því sem þú segir.
SvaraEyðaÞrátt fyrir að ég hafi einungis átt þrjú dásamleg sumur á Ísafirði sem unglingur þá fann ég tilfinningu fjallanna sem umvefja mann...og þegar ég fór vestur í sumar eftir fjórtán ára fjarveru var tilfinningin enn til staðar og einmitt sterkari en áður. Hugsaði akkúrat þetta með börnin mín...hvað það væri dásamlegt ef þau fengju tækifæri til þess að upplifa tilfinningu fjallanna.
En eins og þú segir þá verður sennilega lítið þangað að sækja ef niðurskurðurinn verður sem á horfir.
Við erum eins og Spilverk þjóðanna sagði forðum í dægurlagatexta...."við erum lítil basaltbunga út í ballarhafi". Hversvegna ekki að nýta allt þetta svæði sem basaltbungan hefur upp á að bjóða...?
Fylgist með síðunni þinni kæra vinkona...ert svo flott í alla staði..:)
Búin að setja síðuna í bókarmerki:)
Hagtölur um fólksflutninga sýna það svart á hvítu að meirihluti þjóðarinnar hefur rangan smekk.
SvaraEyðaÞetta er satt hjá pabba með munaðarvörurnar. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég las blaðagrein eftir einhvern bílasalann í Reykjavík um að mikilvægi sjávarútvegs væri stórlega ofmetið. Hann stæði ekki undir nema um 6% af verðmætasköpun þjóðarinnar. Ég átti erfitt með að kyngja þessu og las þá skýrslu Hagstofunnar sem hann vitnaði í. Í henni kom í ljós að opinber stjórnsýsla var með hærra hlutfall verðmætasköpunar. Þá voru þetta að sjálfsögðu tölur um útgreidd laun eftir starfstéttum, en ekki verðmætasköpun. En þetta lýsir þeim ranghugmyndum sem ég er hræddur um að margir hafi.
Mér finnst samt að greinaskrifandi bílasalar í Reykjavík eigi að hafa sæmilegan aðgang að fæðingadeildum og skurðstofum.
Sæl
SvaraEyðaÞetta er góður pistill og ég hlakka til að verða fastagestur á síðunni þinni.
Ég er uppalinn og búsettur Ísfirðingur, hef gert þetta allt eftir formúlunni; náð mér í menntun og reynslu annars staðar en flutti hana aftur til baka og stefni nú að því að láta gott af mér leiða í þessu samfélagi, ala af mér fjölskyldu og hlúa að henni. Ég er ánægð með fólkið sem kýs að koma og búa með okkur og þakklát þegar það er skemmtilegt og gott fólk, en öfugt við bróður þinn þá argast ég ekki eða hneyklast út í fólk sem ákveður að flytja í burtu - ef það er á réttum forsendum.
Hins vegar hef ég sjaldan eða bara aldrei orðið jafn reið og síðustu daga eftir að þetta mál, málanna kom upp. Nú á ekki bara að gera mér það virkilega erfitt að búa hér og hlúa að fjölskyldu minni heldur nánast koma í veg fyrir að annað hugsandi og gott fólk flytjist til okkar.
Ég er tilbúin að leggja margt á mig í þessari kreppu, til að hlutirnir megi réttast af, og geri mér grein fyrir að við verðum öll að standa saman og taka á okkur ákveðna skerðingu af lífsins gæðum. En þegar ráðamenn leggja það til, upp í opið geðið á mér, að það sé mikilvægara að borga vexti, halda úti sendiráðum, stofna Íslandsstofu og margt fleira heldur en að halda uppi öruggri heilbrigðisþjónsutu fyrir okkur úti á landi þá get ég ekki meir. Ég trúi því ekki að nokkur maður komist til valda, eða verði ráðherra á Íslandi í dag án þess að hafa litið á landakort, heyrt af flugsamgöngum um vestfirði eða keyrt vegi landsins. Og ef það er rétt þá er þeim annað hvort algjörlega sama um almenning eða þeir eru illa innrættir.
Ég gæti haldið lengi lengi lengi áfram og ausið úr skálum reiði minnar en ég ætla að draga andann og láta mér nægja að benda á orð sem voru sögð í Speglinum um kvöldmatarleytið í kvöld: "Reykjvík er orðinn baggi á landsbyggðinni".