laugardagur, 16. október 2010

Eðlið og eyðurnar - rangstæður pistill

Í síðasta pistli nefndi ég í framhjáhlaupi fyrirbæri sem hefur ítrekað leitað á huga minn, sumsé þörf mannsins fyrir að fjölga sér. Nokkrir þættir í þessu fyrirbæri eru borðleggjandi. Dýrategund sem ekki fjölgar sér er snögg að þurrka sig út úr genamenginu. Náttúran hlýtur því að hafa laumað þessu inn í grunnforritið hjá okkur. Við þurftum síðan auðvitað að flækja málin með því að gerast siðmenntaðar og vitrænar verur.

Á fjölmörgum sviðum mannlífsins er slagurinn milli dýrsins og skynseminnar opinber og viðurkenndur. En á þessu sviði virðist vera bannað að tala um togstreitu milli ólíkra hliða. Kannski er það heilagleikinn sem lengi vel umlukti allt sem snerti barneignir. Í heimi hinnar hamingjusömu húsmóður var ekkert dýrslegt eða stjórnlaust. Madonnan með barnið á arminum mátti ekki vera þunglynd eða þykja leiðinlegt að strauja barnaföt. Hún geislaði af hamingju og þakklæti fyrir hlutskipti sitt í lífinu.

Afkomandi rauðsokkanna átti annan djöful að draga. Löngun til að sinna börnum og búi var farið með eins og mannsmorð í heimi þar sem baráttan fyrir tilverurétti utan hins gamla, úrelta ramma var allsráðandi. Í dag viljum við kannski meina að jafnvægi sé náð. Konur hafi félagslegt leyfi til að velja sína leið án þess að vera andlega grýttar af samferðamönnum sínum. En ég er ekki frá því að það sé ennþá forboðið að vera í togstreitu, vera dýrslegur og stjórnlaus og vita ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Krafa dagsins er að konan viti hvað hún vill.

Nú þekki ég fólk sem segist í fullri einlægni ekki langa að eiga börn. Og ég trúi því. Þessir einstaklingar hafa valið sér aðra leið en móðir náttúra hafði lagt upp með. Þau vita að lífinu verður ekki lifað í einni vídd, að tilgangur okkar er orðinn talsvert flóknari en svo að okkar eina verkefni sé að láta boltann rúlla áfram.

En þetta eru undantekningarnar. Flestir vilja eignast börn. Flest okkar vilja meira að segja eignast fleiri en eitt. Ég hélt í sakleysi mínu að ferlið snerist um að komast á endanum í pena og huggulega fjölskyldustærð, hver sem hún svo væri. Maður myndi bara finna þegar þetta væri komið gott. Núna er ég hins vegar stödd á einhverjum undarlegum krossgötum þar sem togstreita dýrsins og skynsemisverunnar er farin að krauma á yfirborðinu.

Dóttir mín, unginn á heimilinu, er nýbyrjuð í skóla. Þegar sonur minn, frumburðurinn, var nýbyrjaður í skóla var dóttir mín nýfædd. Ef ekki væri fyrir efnahagsástandið og þá geðveiki sem greip mig fyrir ári þegar ég tók að mér stórt rannsóknarverkefni, væri orðið óþægilega þægilegt að vera ég. Á þeim tíma dagsins sem einu sinni hét úlfatíminn (milli fjögur og átta þegar allir eru þreyttir, spenntir og háværir) stend ég mig æ oftar að því að sitja ein og sinna mínum verkum í grafarþögn. Börnin eru ekki í hárinu á mér heldur úti að leika eða inni í herbergi að teikna.

Og þá hefst togstreitan. Meirihlutinn af mér er himinlifandi. Ég sé fram á nýja tíma með meira frelsi og orku til að takast á við spennandi hluti. Unglingsár frumburðarins eru framundan og verða ærið verkefni út af fyrir sig. Ég verð þreytt bara við tilhugsunina um að hlaupa á eftir óvita á öðru ári sem leitar uppi hættur eins og þær væru gotterí. Nenni heldur engan veginn að koma mjaðmagrindinni á mér í það form sem hún þyrfti að vera í til að komast í gegnum aðra meðgöngu ógrátandi. Fyrir utan það að þegar ég horfi í spegilinn, á gráa lokkinn sem er að brjótast fram í mínum 37 ára gamla kolli, finnst mér ég ekki lengur á þessum stað í minni vegferð. Föður- og móðursystir, kannski amma þegar fram líða stundir. En ekki ungamamma einn ganginn enn.

Hvernig í almáttugs bænum getur þá staðið á því að mér virðist það lífsins ómögulegt að gefa endanlega upp á bátinn hugmyndina um að bæta við öðru barni? Ég hélt lengi vel að þetta væri einhver tegund af geðveiki. Kannski væri ég búin að finna hina einu sönnu móðursýki, eins konar fíkn í móðurhlutverkið.

Mér varð strax rórra eftir að ég ræddi þetta mál við konu sem er mér bæði eldri og reyndari á alla kanta. Hún var sannfærð um að þessi ákveðna tegund af móðursýki væri hluti af eðlinu. Það skipti engu máli hversu mikið af börnum við ættum eða hvað við værum gamlar. Tilfinningin um að þurfa meira kæmi alltaf til með að skjóta upp kollinum aftur og aftur. Önnur góð kona vildi meina að þetta náttúruafl hefði þriggja ára sveiflutíðni. Að á þriggja ára fresti grípi konur tómleikatilfinning sem þær fylli í með nýju áhugamáli, vinnu, hundi eða barni.

Þessar kenningar eru auðvitað gargandi andfemínískar og greiða upp á móti hárunum öllum þeim sem vilja meina að þeir eigi frjálst val um líf sitt. En það verður að segjast að þær eiga óþægilega vel við um lífshlaup mitt síðustu árin. Samkvæmt þessu er ég einmitt núna í miðri þriggja ára krísu, sem útskýrir kannski hvað ég er upptekin af þessu málefni í augnablikinu. Núverandi árás eðlishvatanna er sem betur fer yfirskyggð af annríkinu sem fylgir því að vera bæði í vinnu og skóla. Búið að byrgja þann brunn. Hvað ég geri í næstu atlögu, þegar við þetta bætist þráhyggjan um að síðasta rykfallna eggið sé farið að skrölta í hálftómum stokknum... ja, það er ómögulegt að segja.

4 ummæli:

  1. mér finnst kannski að þú sért ekki í heppilegasta starfinu til að losna undan svona þráhyggju!
    annars var ég voða glöð þegar ég uppgötvaði að ég var mett í þessum málum, en...unginn minn er reyndar bara 3ja ára og ennþá dálítill úlfur á tímum:)
    kv Bjarnveig

    SvaraEyða
  2. ...já kæra vinkona, þú kannt að koma tilfinningum í orð:)

    Ég gæti ekki skilið þig betur...ég held og trúi eins og sagt er í athugasemdinni að ofan. Þú finnur þegar þú ert mett í barneignarmálum. Fylgja sinni innri sannfæringu...gó girl:)

    Skemmtilegar pælingar hjá þér....nú fer ég að kikka í kaffi fljótt...holtið er jú lítið og lágt, knús á Skaftókrúið:*

    SvaraEyða
  3. Ég biðst innilegrar afsökunar á að hafa arfleitt þig að mínum víðfræga valkvíða. Ekki nóg með að okkur finnist allt of oft bæði betra (eins og stráknum í Cheerios-auglýsingunni), heldur veltum við möguleikunum svo rækilega fyrir okkur, að allir kostir og gallar á báðum hliðum beinlínis æpa á okkur. - Svona þegar við höldum að við eigum val.
    Tvær forsendur hafa reynst mér vel til ákvarðanatöku: Það er betra að sjá eftir því sem maður gerir, en því sem maður gerir ekki. - Og; lífið er áskorun. Ég hef hingað til ekki séð eftir því að taka áskorunum lífsins, frekar en að hreiðra um mig í sófanum.

    SvaraEyða
  4. Mamma þín vill annað barnabarn, ekki sjá eftir því að hafa eignast of fá börn (mín túlkun á athugasemdinni :D )
    Ég fór í gegnum þessar barnapælingar fyrir 3 árum og fann í hjarta mínu að ég væri hætt. Þú ert greinilega ekki komin á þann stað ennþá. Nú er ég komin í ömmuhlutverkið og ætla að njóta þess í botn.
    Kveðja

    SvaraEyða